Femínismi og fíkn

Flestir sem sækja sér ráðgjöf og meðferð við geðrænum vanda eru konur. Flestir sem starfa við ráðgjöf og meðferð við geðrænum vanda eru konur. Nánast allar meðferðir sem notaðar eru til að takast á við geðrænan vanda og fíkn eru þróaðar af hvítum, vestrænum miðaldra körlum.

Femínískir þerapistar telja að skilningur á félagslegu, menningarlegu og pólitísku umhverfi sé nauðsynlegur við meðferð á fíkn og geðrænum vanda. Að skilja og viðurkenna að kúgun hefur neikvæð áhrif á líkamlega og andlega heilsu er því lykilhugmynd í femínískri meðferð (Brown & Bryan, 2007).

Samkvæmt femínískum kenningum þróa allir einstaklingar með sér aðferðir til að leysa vandamál sín og lifa af. Sumar aðferðir eru „heilbrigðar“ og samfélagslega viðurkenndar, aðrar ekki. Mikil vinna, mikil hreyfing og „hóflegt“ magn af lýtaaðgerðum eru allt félagslega viðurkenndar aðferðir til að takast á við vanda. Hins vegar er ofnotkun áfengis, notkun ólöglegra vímuefna eða sjálfsskaði „óheilbrigð hegðun“ og samfélagið flokkar þessa hegðun sem veikindi (Brown & Bryan, 2007).

Gildi femínískrar meðferðar

Kúgun og ofbeldi hafa skaðleg áhrif á andlega og líkamlega heilsu skv. kenningum femínista. Eitt mikilvægasta markmið femínískrar meðferðar er því að valdefla skjólstæðinga og stuðla að breytingum á lífi þeirra – í stað þess að kenna þeim að sætta sig við sínar aðstæður (Brown & Bryan, 2007).

Femínískir þerapistar skoða vanda skjólstæðinga með hliðsjón af samfélagslegu, pólitísku og menningarlegu samhengi. Hvaðan er þessi einstaklingur að koma? Hvernig er hans umhverfi? Hvernig er félagsleg staða? Femínísk meðferð metur þannig ekki eingöngu líðan einstaklingsins heldur viðurkennir einnig að umhverfið er hluti af vandanum.

Sex megingildi femínískrar meðferðar eru:

  1. Hið persónulega er pólitískt. Gagnrýnin meðvitund.
    (The personal is political and critical consciousness.)
  2. Stuðlað að félagslegum breytingum.
    (Commitment to social change.)
  3. Raddir kvenna og stúlkna eru metnar og reynsla þeirra heiðruð, sem og raddir þeirra sem hafa upplifað jaðarsetningu og kúgun.
    (Women’s and girls’ voices and ways of knowing, as well as the voices of others who have experienced marginalization and oppression, are valued and their experiences are honored.)
  4. Meðferðarsambandið byggist á jafnrétti.
    (The counseling relationship is egalitarian.)
  5. Áhersla á styrkleika og endurskilgreining andlegra erfiðleika.
    (A focus on strengths and a reformulated definition of psychological distress.)
  6. Allar tegundir kúgunar eru viðurkenndar sem og tengslin á milli þeirra.
    (All types of oppression are recognized along with the connections among them.)
    (Corey, 2017).

DSM 5 og sjúkdómsgreiningin

Rannsóknir sýna að bein tengsl eru á milli ofbeldis og geðrænna raskana (Golding, 1999). Femínískir þerapistar hafa gagnrýnt hefðbundnar hugmyndir um hver telst andlega heilbrigður einstaklingur og hver ekki og telja þær vanmeta aðstæður kvenna og annarra kúgaðra hópa. Gagnrýni femínisma hefur sérstaklega beinst að DSM 5 greiningarkerfinu.

Rannsóknir sýna að kyn, menning og kynþáttur skipta máli við mat á geðröskunum. Samkvæmt femínískri hugmyndafræði byggja hefðbundnar greiningar geðraskana á því sem ríkjandi (karlkyns) menning telur vera „eðlilegt“. Mörg „sjúkdómseinkenni“ megi þ.a.l. líta á sem aðferðir einstaklings til að takast á við vandamál, eða lifa af erfiðar aðstæður, frekar en sem vísbendingu um geðröskun (Corey, 2017).

Er LGBTQ einstaklingur sem upplifir kvíða og ótta að bregðast við kúgun og mismunun eða þjáist hann af kvíðaröskun?

Er kona sem hefur orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi og þöggun að bregðast við umhverfi sínu eða þjáist hún af persónuleikaröskun?

Er heimilislaus einstaklingur að bregðast við fordómum og mismunun þegar hann telur sér ógnað í matvöruverslun eða er hann með ofsóknargeðklofa?

Femínísk nálgun spyr spurninga á borð við þessar. Hún tekur til greina kúgandi þætti í samfélaginu frekar en að ætlast til þess að skjólstæðingar aðlagi sig að brengluðum veruleika (Corey, 2017).

Að lifa með afleiðingum ofbeldis

Meginmarkmið meðferðar er að styrkja skjólstæðinginn og valdefla hann. Samkvæmt femínískri hugmyndafræði felst valdníðsla meðal annars í því að hengja á skjólstæðinga ófullnægjandi sjúkdómsgreiningar, gefa óumbeðin ráð og reyna að hafa áhrif á líf skjólstæðinga með því að setja sig í hlutverk sérfræðings (Corey, 2017).

Skjólstæðingurinn er sérfræðingurinn í eigin lífi og veit hvað er best (Brown & Bryan, 2007).

Heimurinn er ekki öruggur staður. Mikilvægasta framlag femínískra þerapista var að vekja athygli heimsins á því hvernig það er fyrir skjólstæðinga okkar að lifa með afleiðingum ofbeldis og kúgunar.

Femínísk hugmyndafræði hefur á undanförnum árum haft gríðarleg áhrif á viðhorf til fíknar og meðferðar. Það er ótrúlega margt í femínískri hugmyndafræði sem mér finnst gagnlegt. Hér er stiklað á stóru en fyrir áhugasama er hér lengri útgáfa á ensku.