Talsvert hefur verið rökrætt um hvort rétt sé að ávarpa áfallasögu einstaklings í vímuefnameðferð. Meðferðarstofnanir eins og SÁÁ hafa verið gagnrýndar fyrir að leggja ekki nægilega áherslu áfallasögu einstaklings og einbeita sér eingöngu að fíknsjúkdómnum. Samkvæmt tölum á vef SÁÁ frá 2019 hafa 78% sjúklinga komið þrisvar sinnum eða sjaldnar til meðferðar. Rúm 4% sjúklinganna hafa hinsvegar komið oftar en tíu sinnum til meðferðar.

Það er augljóslega lítið gagn í því að fara oftar en 10 sinnum í sömu meðferðina. Vandamálið er ekki að sjúklingurinn sé áhugalaus eða vonlaus um bata. Enginn leggur á sig tugi meðferða nema þrá betra líf.

Það eru hins vegar margar vísbendingar um að þessi veikasti sjúklingahópur geti ekki náð bata í hefðbundinni vímuefnameðferð eins og þeirri sem SÁÁ veitir. Þessir skjólstæðingar þurfa aðra og sérhæfðari nálgun.

Gagnreyndar vímuefnameðferðir sem taka á áfallasögu

Margar gagnreyndar vímuefnameðferðir taka á áfallasögu. Þær eiga það sameiginlegt að líta á áfallamiðaða nálgun sem lykilatriði og viðurkenna að einstaklingar sem glíma við vímuefnavanda þurfa skilning og samkennd. Í áfallamiðaðri meðferð leggjast allir á eitt, starfsfólk, umhverfi, og viðhorf, til að skapa umgjörð sem styður einstakling til bata. Eftirfarandi atriði einkenna áfallamiðaða meðferð

Öruggt umhverfi

 • Skilaboðin til skjólstæðings eru að einkenni hans séu eðlileg
 • Starfsfólk hefur skilning á hegðun skjólstæðinga og þekkir kveikjur (triggers)

Virðing er borin fyrir

 • menningu (LGBTQIA, litarhætti, aldri, tungumáli, trú o.s.frv.)
 • sjálfræði (skjólstæðingurinn ræður för)
 • réttlæti (sambærileg meðferð er í boði fyrir alla)
 • góðmennsku (við sjáum það góða í fólki og leitum skýringa skv. því)

Fagaðili spyr viðeigandi spurninga:

 • Hvað kom fyrir þig? (Ekki: hvað er að þér?)
 • Hvaða áhrif hefur það haft á þig? (Ekki: hvers vegna gerirðu ekki eins og þér er ráðlagt/sagt?)
 • Hver er til staðar fyrir þig? (Ekki: hvers vegna hefurðu ýtt öllum frá þér?)

Áfallamiðuð meðferð ávarpar valdaójafnvægi í lífi einstaklingsins til að draga úr líkum á endurteknum áföllum. Markmiðið er ekki eingöngu að ná tökum á vímuefnanotkun heldur ekki síður að hjálpa einstaklingnum að ná jafnvægi og tilfinningalegri vellíðan.

Hvað eru áfallaeinkenni?

Einstaklingar sem hafa orðið fyrir áföllum geta upplifað margskonar einkenni, bæði sálræn og líkamleg. Í sumum tilfellum reynir hugurinn að takast á við áföll með því að afneita þeim en afleiðingar áfallsins koma samt sem áður fram í hegðun. Hérna eru nokkur dæmi um algeng áfallaeinkenni:

 • Miklar skapsveiflur
 • Ófyrirsjáanleg, hvatvís eða óskynsamleg hegðun
 • Skömm og sektarkennd
 • Sjálfsásökun og sjálfshatur
 • Áköf eða óviðeigandi opinberun tilfinninga
 • Viðvarandi ótti, taugaspenna eða kvíði
 • Langvarandi æsingur eða pirringur
 • Skortur á sjálfstrausti
 • Átraskanir
 • Að forðast aðstæður sem minna á áföllin
 • Stöðug endurupplifun atburðarins
 • Samskiptavandi
 • Erfiðleikar við að tengjast öðrum í nánum samböndum

Allir lífsógnandi atburðir geta valdið áfallastreituröskun (PTSD) og einstaklingar sem orðið hafa fyrir áföllum eru í mikilli hættu á að verða endurtekið fyrir áföllum.

Þótt mikilvægt sé að ávarpa áfallasögu einstaklings ættu áfengis- og vímuefnaráðgjafar ætíð að hafa í huga að skjólstæðingar okkar eru ekki endilega reiðubúnir að takast á við áföllin sín, jafnvel þótt þeir glími við alvarlegar afleiðingar.

Skjólstæðingurinn á að stjórna ferðinni, og hraðanum. Ráðgjafi á aldrei að þvinga skjólstæðing til samstarfs eða þrýsta á hann til að skýra frá áföllum.

Áfallamiðuð meðferð

Áfallamiðuð meðferð er dýrari en hefðbundin meðferð því hún er einstaklingsmiðuð og ætti ekki að hafa fyrirframákveðna tímalengd. Skjólstæðingurinn þarf að fá tækifæri og næði til að einbeita sér að bata og meðferðinni lýkur þegar markmiðum meðferðarinnar er náð – ekki þegar ákveðnum dagafjölda er náð.

Umræðan á Íslandi er oft einsleit. Við förum í „annaðhvort eða leikinn“ og skipum okkur í fylkingar: Annaðhvort finnst fólki að allir sem glíma við vímuefnavanda þurfi að fara í áfallameðferð – eða enginn.

Það er hagkvæmt og praktískt að hafa meðferðarkerfi sem grípur marga einstaklinga í einu og skilar stórum hluta þeirra aftur út í samfélagið með lausn á sínum vanda. En það er afar óhagkvæmt, dýrt og óskynsamlegt að senda lítinn hluta hópsins aftur og aftur í sömu hringekjuna með litlum sem engum árangri.

Ég held að tölur SÁÁ segi okkur mjög margt og séu þær skoðaðar í samhengi við erlendar rannsóknir segja þær okkur jafnvel enn meira. Margir ná bata eftir 1-3 hefðbundnar vímuefnameðferðir og ná tökum á lífi sínu eftir það. En hinir u.þ.b. 1000 einstaklingarnir sem komið hafa oftar en tíu sinnum til meðferðar, eða rúmlega 4% sjúklingahópsins, þurfa eitthvað allt annað og meira. Það er miklu ódýrara og skynsamlegra að búa til meðferð sem hæfir þessum hópi en að senda hann hring eftir hring í gegnum sama meðferðarbatteríið. Fyrir nú utan hvað það er miklu mannúðlegra.

Skimun og greining

Á Íslandi leggjum við ekki mikla áherslu á skimun og mat á undirliggjandi röskunum eða öðrum afleiðingum vímuefnavanda. Einstaklingur sem telur sig hafa vanda af vímuefnaneyslu getur einfaldlega skráð sig í meðferð, án þess að gangast undir sérstaka greiningu á vanda sínum. Gott aðgengi að meðferð er lykilatriði en það ætti ekki að koma í veg fyrir skimun og greiningu. Mat á skjólstæðingi er mikilvægur þáttur í að komast til móts við þarfir og geta veitt honum viðeigandi meðferð. Skimunar- og matstæki aðstoða ekki einingis við greiningu heldur gefa þau sterka vísbendingu um viðeigandi einstaklingsmiðaða meðferð fyrir hvern skjólstæðing.

Við greiningu ætti ævinlega að notast við stöðluð, viðurkennd greiningartæki. Notkun staðlaðra greiningartækja eykur samræmi upplýsinga og stuðlar að sameiginlegum skilningi fagfólks á mikilvægum röskunum og áfallaeinkennum. Að lokum er hér listi yfir skimunar- og matstæki sem upplagt væri að þýða og/eða nota markvisst innan meðferðargeirans.

Skimunar- og matstæki á vímuefnavanda

 • AUDIT: Alcohol Use Disorders Identification (einkenni áfengisvanda)
 • CRAFFT 2.0: Adolescents 12-18 year old (fyrir 12-18 ára unglinga)
 • SBIRT: Screening, Brief Intervention and Referral to Treatment (skimun, stutt íhlutun og tilvísun í meðferð)
 • AUS: Alcohol Use Scale (viðmið um áfengisneyslu)
 • ASI: Addiction Severity Index (alvarleikaskali fíknar)
 • SUD: Substance Use Disorder (vímuefnaröskun)
 • ASSIST: Alcohol, Smoking, and Substance Involvement Screening Test (skimunarpróf fyrir áfengi, reykingar og vímuefnanotkun)
 • MAST: Michigan Alcohol Screening Test (Skimunarpróf fyrir áfengisnotkun)

Skimunar- og matstæki á geðvanda

 • CSS: Columbia Suicide Screen (skimun fyrir sjálfsvígsáhættu)
 • THQ: Trauma History Questionnaire (spurningalisti um áfallasögu)
 • SBIRT: Screening, Brief Intervention and Referral to Treatment (skimun, stutt íhlutun og tilvísun í meðferð)
 • CODSI-MD: Co-Occurring Disorders Screening Instrument for Mental Disorders (skimun fyrir samhliða geðröskunum)
 • ACE: Adverse Child Experience (skimun fyrir áfallaupplifun í æsku)
 • CBCL: Child Behavior Checklist (gátlisti um hegðun barna)
 • CATS: Child and Adolescent Trauma Screen (skimun fyrir áföllum hjá börnum og unglingum)
 • TSCC: Trauma Symptom Checklist for Children (gátlisti um áfallaeinkenni barna)
 • CANS Trauma: Child and Adolescent Needs and Strengths-Trauma Comprehension (þarfir og styrkleikar barna og unglinga – skilningur áfalla)