Kjörorð skaðaminnkunar eru að mæta einstaklingnum þar sem hann er. Á Íslandi er aðgangur að fjarheilbrigðisþjónustu háður ýmsum hindrunum, til dæmis rafrænum skilríkjum. Ég hef kynnt mér þessi mál og eftir því sem ég les meira því sannfærðari er ég um að við þurfum að hætta að einblína á persónuvernd og færa athyglina yfir á aðgengi að heilbrigðisþjónustu.

Persónuvernd er mikilvæg en ekki mikilvægari en lífið sjálft. Það hlýtur að vera forgangsatriði að einstaklingur í alvarlegum vímuefnavanda geti fengið aðstoð þegar hann biður um hjálp. Ekki eftir vikur eða mánuði heldur “on-the-spot”. Það er undarleg forgangsröðun að senda hann fyrst í bankann til að sækja um rafræn skilríki.

Flestir eiga snjallsíma – og sumir eiga meira að segja ekkert nema snjallsíma. Heimilislausir einstaklingar eru partur af okkar samfélagi og þeir eru með facebook-síður og nýta sér tæknina rétt eins og aðrir til að vera í samskiptum og afla sér aðfanga.

Ég er smá tækninörd og ákvað þess vegna m.a. að sérhæfa mig í fjarheilbrigðisþjónustu fyrir fólk í vímuefnavanda í meistaranáminu mínu í University of South Dakota. Í náminu hef ég kynnst helling af frábærum símaöppum sem við gætum nýtt okkur til að hjálpa einstaklingum í vanda.

Fjarheilbrigðisþjónusta er klárlega vannýtt auðlind sem við, sem störfum í þessum málaflokki, ættum að skoða til að þjónusta okkar skjólstæðinga.

Höfundar greinarinnar, After COVID-19, Telehealth Must Stay to Save Our Patients From Overdose, kynntu sér ókeypis símaöpp og fóru síðan á milli skýla fyrir heimilislausa einstaklinga og tengdu þá á staðnum við aðstoð (telehealth on-the-spot). Einstaklingar fengu beint samband við ráðgjafa og með þessum hætti fengu ráðgjafarnir einnig ómetanlega innsýn inn í heim skjólstæðinga sinna: Einstaklingar fengu vídeóviðtal við ráðgjafa þar sem þeir voru staddir hverju sinni – með því að ýta á takka í símanum sínum. Talandi um að hitta skjólstæðing þar sem hann er.

„The insights telehealth has given into the daily lives of our patients have been incredible. We have been taken on virtual walking tours of dairy farms, shared work breaks with essential workers, ridden empty buses through distant Upstate towns, been shown awful tent living conditions and provided sleeping bags in response.“

Ég klára námið í vor og mitt fyrsta verkefni verður að skoða heim síma-appa til að nýta í þjónustu við skjólstæðinga. Úrvalið er mikið en gæðin eru misjöfn og því þarf að vanda valið. Ég hvet alla skaðaminnkunar-tækni-nörda til að hjálpa mér við þetta verkefni og benda á flott öpp sem hægt væri að nýta – og þýða – til að auka aðgengi að heilbrigðisþjónustu.

PS. Datt í hug að bæta þessu við svona eftirá: Eitt sem er t.d. mjög einfalt að innleiða er sk. öryggisorð (safeword). Þá koma ráðgjafi og skjólstæðingur sér saman um að ef ákveðið orð er notað þýðir það að viðkomandi er í hættu og að óska eftir aðstoð. Í fjarviðtali getur verið erfitt að meta aðstæður á vettvangi (ógnandi einstaklingur nálægt t.d.) Dæmi um öryggisorð væri t.d. „kaffibolli“. Ef það er mitt öryggisorð og ég segi í fjarviðtali að mig langi í „kaffibolla“ þá veit ráðgjafinn að ég er að biðja hann um að hringja á aðstoð fyrir mig.