Vímuefnaneysla og glæpir hafa löngum verið samofin í hugum fólks. Ofbeldi er hins vegar sem betur fer fremur sjaldgæft samanborið við neyslu áfengis og vímuefna. Flestir nota áfengi eða vímuefni einhvern tíma á lífsleiðinni en fáir beita þó ofbeldi.

Vopnaður einstaklingur er líklegri til að beita ofbeldi en vímaður

Í þessu samhengi má nefna að einu sinni var gerð rannsókn sem sýndi að það var algengara að byssur kæmu við sögu í morðrannsóknum en vímuefnaneysla. Vopnaður einstaklingur er sumsé líklegri til að beita ofbeldi en vímaður. Önnur rannsókn sýnir að glæpum fjölgar svo um munar í góðu veðri. Og ísát eykst. Það er fylgni milli glæpa, ísáts og sólskinsstunda. Þá hlýtur lausnin að vera: Varist fólk sem borðar ís í góðu veðri. En kannski eru þetta hártoganir.

Í flestum löndum er ólöglegt að hafa í fórum sínum vímuefni, önnur en áfengi. Og víða í heiminum er fólk fangelsað fyrir þann glæp að hafa notað vímuefni.

Konur í fangelsum eru 5-8 sinnum líklegri til að misnota áfengi en konur almennt, 10 sinnum líklegri til að misnota vímuefni og 27 sinnum líklegri til að nota kókaín. Faraldsfræðilegar rannsóknir af konum í fangelsum sýna að u.þ.b. 30%-52%, kvennanna er með fíknsjúkdóm.

Fangelsin okkar eru meira og minna full af fólki sem þarfnast heilbrigðisþjónustu – ekki refsingar. Við erum miklu duglegri að refsa fólki og handtaka það í stað þess að bjóða því aðstoð.

Það er munur á örvæntingu og ofbeldi

Það er munur á örvæntingu og ofbeldi. Það er munur á glæp og glæp. Margir eru á biðlista eftir meðferð og reyna á meðan af veikum mætti að fjármagna neyslu.

Umræðan í sumar um afnám refsinga fyrir vörslu fíkniefni var ágæt en hún var einsleit. Það er alls ekki nóg að afnema refsingar. Jaðarsetning er refsing. Að komast ekki undir læknishendur er refsing. Við þurfum að taka málið miklu lengra. Við þurfum að ræða hvernig við getum hætt að refsa fólki fyrir fíkn og hjálpað því að komast út úr vítahring refsinga, ofbeldis og fátæktar.


Heimildir:

De La Rosa, M., Lambert, E., Gropper, B., & National Institute on Drug Abuse. (1990). Drugs and violence: Causes, correlates, and consequences (DHHS publication; no. (ADM) 91-1721). Rockville, MD : Washington, DC: U.S. Dept. of Health and Human Services, Public Health Service, Alcohol, Drug Abuse, and Mental Health Administration, National Institute on Drug Abuse ; For sale by the Supt. of Docs., U.S. G.P.O.

Resignato, A. (2000). Violent crime: A function of drug use or drug enforcement? Applied Economics, 32(6), 681-688.