Tveggja heima sýn

19. júlí 2020

Það skiptir ekki öllu máli hvað við viljum gera fyrir fólk með fíknsjúkdóm – heldur hvað fólk með fíknsjúkdóm vill að við gerum fyrir það.

Það hafa verið átök á Íslandi um hvernig samfélagið eigi að takast á við fíkn. Er fíkn sjúkdómur? Er fíkn afleiðing áfalla? Á að veita fé í inniliggjandi sjúkrahússmeðferð? Á að styrkja skaðaminnkandi úrræði, eins og t.d. neyslurými? Skila forvarnir árangri? Eru áfengis- og vímuefnaráðgjafar nógu vel menntaðir? Hvað með sérstakar þarfir kvenna og barna? Geta börn yfir höfuð verið með fíknsjúkdóm? Eða þjást þau af hegðunarvanda, kvíða, þunglyndi eða einhverju allt öðru?

Æ oftar heyrist að það þurfi að bylta íslenska meðferðarkerfinu. Nú felist lausnin í áfallamiðaðri samtalsmeðferð og skaðaminnkun en ekki t.d. sjúkrahússvist.

Mér finnst gríðarlega mikilvægt að umræðan sé lifandi og við séum stöðugt að leita lausna til að gera betur. En ég held samt að það sé hættulegt að telja sig hafa höndlað sannleikann og ætla að bylta íslensku meðferðarkerfi. Og þá meina ég að það getur verið varasamt að skipta út einu úrræði fyrir annað. Miklu frekar ættum við að styrkja það sem við gerum vel og bæta við því sem vantar. Það er næg þörf fyrir okkur öll sem störfum í þessum erfiða málaflokki. Bæði fagfólk með menntun á háskólastigi og þá sem hafa minni menntun, en ef til vill meiri reynslu.

Staðreyndin er sú að birtingarmynd fíknar er margs konar og fólk með fíknsjúkdóm er afar ólíkt innbyrðis. Fíknsjúkdómurinn er misalvarlegur hjá fólki og sumir þurfa margar meðferðir og mikið inngrip meðan aðrir ná bata á stuttum tíma. Vandinn kristallist í því að rétta svarið er ekki eitt heldur mörg. Fíkn getur verið sjúkdómur og afleiðing áfalla. Umhverfi og erfðir spila saman. Eitt barn getur verið með fíknsjúkdóm meðan annað glímir við hegðunarvanda. Það getur verið nauðsynlegt fyrir suma að vinna í afleiðingum áfalla samhliða meðferð meðan öðrum er það beinlínis hættulegt vegna lítilla varna og álagsþols.

Það skiptir ekki öllu máli hvað við viljum gera fyrir fólk heldur hvað fólk vill að við gerum fyrir það. Við þurfum að setja skjólstæðinga okkar í fyrsta sæti og huga að þeirra þörfum.

Hugum að mannréttindum og gætum þess að fólk sem þarfnast meðferðar deyi ekki á biðlista. Ræðum opinskátt um þarfir kvenna og barna án þess að stimpla alla karlmenn með fíknsjúkdóm sem ofbeldismenn.

Gætum þess að setja saman fjölbreytt hlaðborð lausna svo flestir fái það sem þeir þurfa. Skaðaminnkun felst í því að mæta fólki þar sem það er og hjálpa því að taka jákvæð skref í átt að betra lífi. Skaðaminnkun er ekki að mæta fólki þar sem það er - og halda því þar.

 

Hugrún Hrönn Kristjánsdóttir
MA-nemi í Addiction Studies
University of South Dakota

Skaðaminnkun