Bakslag eftir meðferð

Bakslag eftir meðferð er í daglegu tali nefnt „fall“. Það er afleitt orð, því það felur í sér að einstaklingi hafi mistekist, hann hafi „fallið“ í neyslu og sé þar af leiðandi ekki lengur í bata.

Bakslag eftir áfengis- og vímuefnameðferð er hins vegar mjög algengt og flestir upplifa bakslag á sinni batagöngu. Um það bil 40-60% af þeim sem fara í meðferð lenda í bakslagi, einu sinni eða oftar og það er alls ekki merki um að einstaklingur hafi ekki náð árangri. Bati er nefnilega ekki svarthvítur. Fólk er ekki annaðhvort í bata eða neyslu. Bati er langtímaverkefni og felur í sér lífsstílsbreytingu, og því er eðlilegt að einstaklingur upplifi bakslag eftir meðferð.

„Allt eða ekkert“ hugsun í þessu samhengi getur verið mjög skaðleg. Ef við lítum þannig á að einstaklingur sé annaðhvort í bata eða neyslu getur bakslag orðið til þess að einstaklingi finnist öll meðferðarvinna unnin fyrir gýg. Hann fær þau skilaboð að hann sé ekki lengur í bata og fer þar af leiðandi af fullum krafti neyslu.

Miklu gagnlegra er að líta á bakslagið sjálft og reyna að læra af því. Hvað varð til þess að einstaklingur upplifði bakslag? Getur hann forðast þær aðstæður í framtíðinni?

Bakslag getur verið afar dýrmæt reynsla. Einstaklingur sem hefur farið í meðferð og upplifir bakslag er ekki á byrjunarreit. Hann þarf einfaldlega aukinn stuðning og hvatningu til að halda áfram sinni batagöngu.