Í sumar vann ég rannsóknarritgerð um mæður með fíknsjúkdóm. Ástæða þess að ég valdi þetta viðfangsefni er sú að eftir að hafa unnið með konum í meðferð varð mér æ ljósara að rauður þráður í þeirra sjúkdómssögu eru sárar tilfinningar þeirra til barna sinna.

Mæður með fíknsjúkdóm upplifa djúpa sorg vegna missis eða tengslaleysis við börn sín og oft er þráin eftir þeim eini hvatinn til að ná bata. En því miður gefum við, sem samfélag, þeim fá tækifæri til að sameinast börnum sínum að nýju eða byggja upp samband við þau eftir meðferð.

Konur hætta ekki að vera mæður þótt þær fái fíknsjúkdóm. Tengsl móður og barns skipta öllu máli fyrir konur. Líka þegar konan er með fíknsjúkdóm. Þessi hugsun rúmast ekki inni í íslensku meðferðarkerfi og því þarf að breyta. Við þurfum að veita mæðrum þjónustu sem byggist á tengslum við börn þeirra – en ekki aðskilnaði.

Óttinn við að leita sér hjálpar

Rannsóknir undanfarinna áratuga hafa leitt í ljós að upplifun kvenna af fíknsjúkdómi er ólík reynsluheimi karla. Konur glíma við erfiðar tilfinningar, eins og sektarkennd og skömm, sem oft tengjast móðurhlutverkinu. Mæður óttast áhrif neyslunnar á börnin sín og algengt er að þær séu hræddar við að leita sér aðstoðar. Ástæðan er ótti við afleiðingarnar, eins og t.d. að missa forræði yfir börnum sínum og/eða missa stuðning velferðarþjónustunnar (SAMHSA, 2009).

Móðir með fíknsjúkdóm sem leitar sér aðstoðar sýnir hugrekki og styrk. Hún á að fá hjálp – ekki refsingu. Því miður er hún í mikilli áhættu á að fá takmarkaða aðstoð, missa frá sér börn sín og lenda í klóm fátæktar og ofbeldis.

Rannsóknir sýna að aðstæður kvennanna batna ekki alltaf þótt þeim takist að stöðva neysluna. Algengt er að mæður í bata eigi erfitt með að byggja upp samband við börnin sín að nýju. Þær eru líklegri en karlar til að vera fátækar, þær fá færri atvinnutækifæri og líkurnar eru miklar á að þær verði fyrir áframhaldandi ofbeldi. Ofan á þetta bætist að veruleiki mæðra með fíknsjúkdóm er alltof flókinn. Mæðurnar eru oft hluti af mörgum þjónustukerfum og þær þurfa að standa sig gagnvart þeim öllum; hér má nefna barnavernd, skólakerfið, félagslega kerfið og heilbrigðiskerfið (Berger & Grant-Savela, 2015). Kröfurnar um samvinnu eru miklar, á sama tíma og móðirin þarf að vinna traust fjölskyldunnar. Þetta reynist mörgum um megn á fyrstu mánuðum edrúgöngunnar.

Mæður eru ekki einsleitur hópur. Móðurhlutverkið er fjölþætt og ólíkar konur sinna því við mismunandi aðstæður. Samt eru sumar mæður félagslega samþykktar – en aðrar ekki.

Mæður með fíknsjúkdóm eru oft stimplaðar sem „slæmar“ og þykja óábyrgar eða eru ásakaðar um vanrækslu (SAMHSA, 2009).

Árið 2004 gerði Brownstein-Evans eigindlega rannsókn á konum í meðferð. Rannsókn hennar leiddi í ljós að mæður með fíknsjúkdóm elska börnin sín afar heitt, rétt eins og aðrar mæður. Þær gleyma ekki börnum sínum þrátt fyrir skerta getu til að sinna þeim. Þvert á móti eru börn þessara mæðra þeim ætíð efst í huga og þær reyna eftir fremsta megni að fá aðstoð við umönnun þeirra (Brownstein-Evans, 2004).

Sérhæfð meðferð fyrir mæður og börn

Um það bil þriðjungur þeirra sem þjást af fíknsjúkdómi eru konur á barneignaraldri (Niccols o.fl., 2010).

Þrátt fyrir þessa staðreynd er hvorki til sérhæfð meðferð á Íslandi fyrir mæður með börn, né áfangaheimili sem gerir mæðrum kleift að búa með börnum sínum og fá stuðning eftir meðferð.

Erlendis eru til áfangaheimili fyrir mæður og börn þeirra, sem bjóða áframhaldandi stuðning eftir meðferð. Þjónustan sem þessi hús bjóða er fjölbreytt en þau eiga það sameiginlegt að hjálpa móðurinni að byggja upp samband við börnin sín og tengjast inn í samfélagið að nýju. Algengt er að móðirin sæki göngudeildareftirmeðferð, hún fær aðstoð við barnaumönnun og fræðslu og stuðning eftir þörfum. Mörg þessara áfangaheimila veita einnig barnshafandi konum stuðning og hjálpa mæðrum, sem misst hafa forræði yfir börnum sínum að sameinast börnum sínum á ný. Börnin fá síðan þjónustu og stuðning, miðað við aldur og þarfir.

Vaxandi fjöldi rannsókna hefur sýnt að samþætt meðferð fyrir móður og barn er árangursríkari en hefðbundin meðferð (Sword o.fl., 2009; Milligan o.fl., 2010; Moreland og McRae-Clark, 2018). Ashley o.fl. (2003) skoðaði niðurstöður 38 rannsókna og bar saman þá þætti sem skiptu mestu máli. Í ljós kom að mikilvægt er að eftirfarandi sex þættir séu fléttaðir inn í meðferðina (Ashley o.fl., 2003):

  1. Barnaumönnun
  2. Mæðravernd
  3. Kvennagrúppur
  4. Fræðsla og vinnustofur sem fjalla um hugðarefni kvenna
  5. Geðheilbrigðisþjónusta
  6. Heildstæð aðstoð (t.d. við að fást við kerfið)

Eftir að meðferð lýkur skiptir höfuðmáli að konurnar fái hjálp við að byggja upp líf sitt að nýju, með börnum sínum og aðstoð við að tengjast inn í samfélagið.

Þetta er hægt að gera með áfangaheimili sem býður börnunum að búa með mæðrum sínum, með stuðningi fagfólks og samvinnu við félagslega kerfið.

Bati er samfélagslegt verkefni

Árið 2006 gerði Cone doktorsrannsókn um reynslu af heimilisleysi út frá sjónarhóli fyrrum heimilislausra mæðra. Í úrtakinu voru 18 konur og samkvæmt niðurstöðum hennar var heimilisleysi afleiðing jaðarsetningar og einangrunar frá samfélaginu. Til þess að leysa vanda þessara kvenna þurftu konurnar aðstoð við að tengjast aftur inn í samfélagið (Cone, 2006).

Árið 2005 skrifaði Arditti grein um áhrif aðskilnaðar foreldris og barna í tengslum við fangelsisvist. Samkvæmt honum upplifir barnið „félagslegan dauða“ foreldris, með öðrum orðum þá „deyr“ foreldrið og það er endanlegt í huga barnsins. Barnið getur hins vegar ekki syrgt opinberlega vegna þess að foreldrið er enn líffræðilega á lífi. Þetta ósamræmi veldur miklum skaða. Barnið upplifir missi og sorg með alvarlegum afleiðingum.

Ég hef áður sagt að skaðaminnkun er ekki að mæta fólki þar sem það er – og halda því þar. Skortur á stuðningi við mæður og börn þeirra verður að vítahring fíknar og fátæktar sem færist frá kynslóð til kynslóðar.

Hér er ritgerðin í heild sinni á ensku fyrir áhugasama