Erfiðir sjúklingar
![](https://skadaminnkun.is/wp-content/uploads/2020/08/IV-use.jpg)
Á Íslandi, sem og víða annars staðar, viðhefst sú vinnuregla að rjúfa læknismeðferð hjá erfiðum sjúklingum með fíknsjúkdóm. Sjúklingum sem brjóta reglur meðferðar, t.d. með því að nota vímuefni, er vísað út á götu. Stundum í lögreglufylgd.
Ég þekki rökin fyrir þessari ákvörðun. Þetta er gert til að hindra truflandi hegðun sem gæti eyðilagt meðferðina fyrir öðrum sjúklingum. Réttlætingin er: Hagsmunir heildarinnar.
En… Að vísa veikum sjúklingi út á guð og gaddinn er í algjörri andstöðu við það sem heilbrigðiskerfið okkar stendur fyrir.
Aðaleinkenni fíknar eru þau að sjúklingurinn hefur ekki stjórn á neyslunni. Sjúklingar sem brjóta reglur í meðferð með því t.d. að nota vímuefni, eru því líklegri til að þjást af alvarlegum fíknsjúkdómi. Þeir ættu þar af leiðandi að fá meiri þjónustu. Ekki minni.
Batagangan hefst með læknisfræðilegri aðstoð, stuðningi og meðferð. Ekki með refsingu.
Þessir sjúklingar eru oft ungir að árum. Algengt er að þeir hafi sögu um geðrænan vanda og oft hafa þeir ekki stuðning frá fjöldskyldu eða vinum. Stjórnleysið í neyslunni er túlkað sem mótþrói og við lokum á þá af því að þeir eru of veikir til að ná árangri inni í 28 daga meðferðarkassanum okkar.
Bati næst með mannúðlegri lausn sem vinnur ekki gegn hagsmunum heildarinnar, né brýtur mannréttindi okkar veikustu skjólstæðinga.