![](https://skadaminnkun.is/wp-content/uploads/2021/06/shutterstock1500.jpg)
Fróðleiksmolar um
HÚSNÆÐI FYRST
Heimilislausir einstaklingar búa við lífshættulegar aðstæður.
Fyrstu skrefin í átt að betra lífi er aðgangur að heilbrigðisþjónustu og öruggur staður til að búa á.
Tökum vel á móti búsetuúrræðum í okkar hverfi og verum hluti af lausninni - ekki vandanum.
SNÚ >
FÆRNI
Það krefst töluverðrar kunnáttu og útsjónarsemi að læra að lifa af á götunni.
Hver dagur er barátta og heimilislausir einstaklingar hafa þróað með sér mikilvæga færni (e. street skills) til að komast af.
Þessir styrkleikar geta komið sér vel í vegferð að betra lífi.
RÓANDI LYF
Róandi lyf geta verið ávanabindandi og skaðleg ef þau eru tekin án samráðs við lækni. Langtímanotkun róandi lyfja veldur því að einstaklingur þarf stærri skammta af lyfinu til að fá sömu áhrif. Það getur leitt til ofskömmtunar.
Ef einstaklingur hefur tekið róandi lyf í langan tíma og vill hætta töku þeirra, er mikilvægt að hann fái aðstoð. Fráhvarfseinkenni róandi lyfja geta verið afar erfið.
SNÚ >
EKKI NOTA EIN(N)
Ef einstaklingur ákveður að nota róandi lyf sem hafa ekki verið ávísuð á hann - eða hyggst nota meira af lyfjunum en ráðlagt er - ætti hann ekki að vera einn. Að hafa einhvern hjá sér er mikilvægt öryggisatriði til að tryggt sé að kallað verði á læknisaðstoð ef eitthvað fer úrskeiðis.
Það er sérstaklega varasamt að kaupa róandi lyf á svörtum markaði eða á netinu því styrkleikur þeirra getur verið afar mismunandi.
ÁFÖLL
Rannsóknir sýna að margir sem glíma við áfengis- og/eða vímuefnavanda hafa orðið fyrir áföllum.
Að auki sýna rannsóknir að þeir sem hafa upplifað áföll eiga erfiðara með að ná bata eftir meðferð.
Það er mikil áskorun að glíma bæði við vímuefnavanda og áfallastreituröskun.
SNÚ >
ÁFALLAMIÐUÐ NÁLGUN
Þegar áfallmiðaðri nálgun er beitt í meðferð er áhersla lögð á öryggi skjólstæðinga og að einkenni um áföll eru eðlileg viðbrögð.
Starfsfólk hefur skilning á hegðun og kveikjum (e. triggers) og lítur á skjólstæðinga sem mikilvæga samstarfsaðila.
Spurt er: Hvað kom fyrir þig?
Í stað þess að spyrja: Hvað er að þér?
ÁFENGI
Hugtakið skaðaminnkun nær einnig yfir áfengisnotkun. Hægt er að gera ýmislegt til að lágmarka skaða af áfengisdrykkju.
- Vertu í öruggu umhverfi.
- Ekki drekka hratt (meira en 2 drykki á u.þ.b. 3 tímum).
- Borðaðu áður en þú drekkur áfengi.
SNÚ >
ÁFENGI
Til að minnka skaðann sem áfengi veldur er miðað við að karlar drekki aldrei meira en 15 drykki á viku og konur 10. Dagleg neysla ætti ekki að fara yfir 4 drykki hjá körlum og 3 hjá konum.
Ekki drekka ofan í lyf, ef þú glímir við vanda, áður en þú tekur mikilvægar ákvarðanir eða sinnir þínum nánustu.
BLÁ LJÓS
Blá ljós eru stundum sett upp á almenningssalernum til að koma í veg fyrir notkun vímuefna í æð. Bláu ljósin gera það að verkum að mjög erfitt er að finna æðar.
Uppsetning blárra ljósa á salernum getur leitt til aukinnar vímuefnaneyslu í æð utandyra, þar á meðal í stigagöngum, húsasundum og görðum.
SNÚ >
BLÁ LJÓS
Ólíklegt er að bláu ljósin hindri einstaklinga í að nota vímuefni í æð. Þau geta þvert á móti valdið auknum skaða því einstaklingurinn er líklegri til að þurfa að stinga oftar og sprauta efnunum framhjá æðinni. Það eykur sýkingarhættu og hættu á ofskömmtun.
Einstaklingur sem notar vímuefni í æð þarf góða birtu til að sjá hvað hann er að gera.
LYFJABLANDA
Þegar einstaklingur blandar saman lyfjum aukast líkurnar á hættulegum aukaverkunum, þar á meðal ofskömmtun.
Áfengi er eitt af þeim vímuefnum sem hættulegt er að blanda saman við önnur lyf.
Það er sérstaklega hættulegt að blanda saman kókaíni og áfengi.
SNÚ >
LYFJABLANDA
Ekki ætti að blanda saman sljóvgandi efnum eins og ópíóíðum (morfínskyldum lyfjum), róandi lyfjum (benzodiazepines), svefnlyfjum og áfengi.
Blanda sljóvgandi lyfja eykur hættu á dái eða dauða vegna öndunarbælingar.
HEIMILISLEYSI
Það eru til margar goðsagnir um heimilisleysi. Ein þeirra er svona:
#Fólk velur að vera heimilislaust.
Hið rétta er að það velur sér enginn að vera heimilislaus. Flestir heimilislausir einstaklingar vilja það sama og aðrir: stuðning, atvinnu við hæfi, heimili og góða heilsu.
SNÚ >
ÁFENGI
Önnur goðsögn er svona:
#Fólk með áfengis- og vímuefnavanda þarf að komast á botninn og heimilisleysi getur verið hluti af því.
Hið rétta er að því fyrr sem gripið er inn í vandann því betra. Fólk með áfengis- og vímuefnavanda á sér miklu meiri batalíkur ef samfélagið hefur úrræði til að veita stuðning og sporna við heimilisleysi.
SNÚ >
SKAÐAMINNKUN
Skaðaminnkun felst í því að mæta fólki þar sem það er og hjálpa því að taka jákvæð skref í átt að betra lífi.
Skaðaminnkun er ekki að mæta fólki þar sem það er - og halda því þar.
SNÚ >
JÁKVÆÐAR BREYTINGAR
Mikilvægustu markmið skaðaminnkunar er að halda fólki á lífi og hvetja það til að gera jákvæðar breytingar á lífi sínu.
Skaðaminnkun viðurkennir að bindindi er ekki raunhæft eða eftirsóknarvert markmið fyrir alla.
ORÐANOTKUN
Það skiptir máli að vanda orðanotkun þegar talað er um einstaklinga með vímuefnavanda og ástvini þeirra.
Fíkill, dópisti, eiturlyfjaneytandi, fyllibytta, alkóhólisti, að vera fallinn, að vera á fallbraut, eru allt dæmi um gildishlaðin orð.
SNÚ >
ORÐANOTKUN
Betra er að tala um einstakling með vímuefnavanda, einstakling með áfengisvanda og bakslag í neyslu.
Þessi orðanotkun sýnir að einstaklingur á í vanda, frekar en að hann sé vandamálið.
MÆÐUR
Um það bil þriðjungur þeirra sem þjást af fíknsjúkdómi eru konur á barneignaraldri.
Þrátt fyrir þessa staðreynd er hvorki til sérhæfð meðferð á Íslandi fyrir mæður með börn, né áfangaheimili sem gerir mæðrum kleift að búa með börnum sínum og fá stuðning eftir meðferð.
SNÚ >
MÆÐUR
Algengt er að mæður með vímuefnavanda upplifi djúpa sorg vegna missis eða tengslaleysis við börn sín. Oft er þráin eftir þeim eini hvatinn til að ná bata.
Móðir sem leitar sér aðstoðar sýnir hugrekki og styrk. Hún á að fá hjálp – ekki refsingu. Því miður gefur samfélagið mæðrum fá tækifæri til að sameinast börnum sínum að nýju eða byggja upp samband við þau eftir meðferð.
NEYSLA OG OFBELDI
Í almennri orðræðu tengir fólk oft saman ofbeldi og neyslu áfengis og vímuefna. Ofbeldi er hins vegar sem betur fer fremur sjaldgæft samanborið við neyslu áfengis og vímuefna.
Flestir nota áfengi eða vímuefni einhvern tíma á lífsleiðinni en fáir beita ofbeldi.
SNÚ >
FANGELSI
Um það bil 65% af föngum í bandarískum fangelsum mæta greiningarskilmerkjum DSM 5 fyrir fíknsjúkdóm. Fangelsi eru meira og minna full af fólki sem þarfnast heilbrigðisþjónustu – ekki refsingar.
Rannsóknir sýna að vopnaður einstaklingur er líklegri til að beita ofbeldi en vímaður.
ÖRYGGI
Það er margt sem getur farið úrskeiðis þegar einstaklingur notar vímuefni í æð. Sem betur fer er líka margt sem hægt er að gera til að auka öryggið.
Alltaf ætti að velja eins öruggt umhverfi og kostur er með tilliti til hreinlætis, hitastigs, lýsingar og næðis. Ef nýta þarf almenningssalerni er mikilvægt að sýna tillitssemi og hreinsa vel eftir sig.
SNÚ >
NÁLASKIPTIÞJÓNUSTA
Aðeins ætti að nota sprautur og nálar einu sinni. Nálar eru einnota og eyðileggjast fljótt. Endurnýting nála veldur skaða á æðum, blæðingu og hættu á sýkingum.
Gjaldlaus nálaskiptiþjónusta er veitt hjá Frú Ragnheiði og í gistiskýlum borgarinnar (á Lindargötu, Granda og í Konukoti). Einnig er hægt að nálgast nálar og sprautur í apótekum.
FRÁHVÖRF
Ef einstaklingur er háður vímuefnum má búast við fráhvörfum þegar neyslu er hætt.
Fráhvarfseinkenni eru oft öfug við vímueinkenni. Til dæmis eru fráhvarfseinkenni af örvandi vímuefnum sljóleiki, þunglyndi, ótti, matarlyst og hjá sumum eru auknar líkur á sjálfsvígstilraunum.
SNÚ >
ÁFENGI
Almenn fráhvarfseinkenni eru eirðarleysi, hraður púls, hækkaður blóðþrýstingur, skjálfti, sviti, kuldi, hitatilfinning, skapsveiflur, niðurgangur, svefntruflanir, kláði og kvíði.
Krampi getur verið alvarlegt einkenni fráhvarfa.
TJÁNING
Áfengis- og vímuefnaneysla eykur líkurnar á að verða fyrir áföllum og áföll auka líkurnar á að þróa með sér áfengis- og vímuefnavanda.
Mjög persónubundið er hvort, og hvenær, einstaklingur er tilbúinn til að takast á við áföll. Sumir hafa mikla þörf fyrir að ræða áföll meðan aðrir vilja það alls ekki.
SNÚ >
TJÁNING
Það getur verið skaðlegt að þrýsta á einstakling að ræða um áföll í vímuefnameðferð - ef hann er ekki tilbúinn til þess.
En það getur líka valdið miklum skaða ef starfsfólk í vímuefnameðferð er ekki í stakk búið að takast á við áfallasögu með skjólstæðingi þegar hann óskar eftir því.
ÖRVANDI EFNI
Örvandi vímuefni virka á þann hátt að þau örva losun boðefnanna dópamíns og noradrenalíns. Dópamínlosun framkallar vellíðan og noradrenalín hefur t.d. áhrif á svengd og mildar sársaukaboð.
Örvandi vímuefni taka burtu þreytu, skerpa einbeitingu og auka sjáfstraust. En þau geta einnig valdið kvíða og geðrofsástandi, og í sumum tilfellum sjálfsvígshugsunum.
SNÚ >
DÓPAMÍN
Náttúruleg losun dópamíns verðlaunar hegðun sem er nauðsynleg til að viðhalda mannkyninu, eins og að nærast og stunda kynlíf.
Hin sterka vellíðunartilfinning, sem vímuefnin framkalla með losun dópamíns, hvetur til endurtekinnar notkunar sem svo aftur getur leitt til fíknar.
FLOKKUN VÍMUEFNA
Á Vesturlöndum hefur víndrykkja löngum verið talin í lagi og er lögleg. Önnur vímuefnaneysla, til dæmis að reykja gras eða sniffa kókaín, er ekki talin í lagi og er þ.a.l. ólögleg.
Flokkun vímuefna í lögleg og ólögleg er ekki byggð á vísindalegum rökum um skaðleg áhrif efnanna á miðtaugakerfið eða önnur líffæri. Flokkunin er byggð siðferðilegri skoðun á því hvað telst rétt og hvað rangt.
SNÚ >
FÍKNIEFNALÖGGJÖFIN
Pólitískar stefnur ættu ekki að snúast um að senda siðferðilega rétt eða röng skilaboð. Þær ættu að byggja á þekkingu og lýðheilsusjónarmiðum. Vímuefnastefna ætti fyrst og fremst að lágmarka skaða samfélagsins af notkun vímuefna.
Alvarleg heilsufarsleg vandamál koma upp þegar hegningarlög eru notuð til að hafa áhrif á vímuefnaneyslu. Fólk sem þjáist af fíkn er sett í fangelsi, það er jaðarsett og því er haldið frá heilbrigðisþjónustu.
SNÚ >
AÐSTOÐ VIÐ HÆFI
Samkvæmt bandarísku fíknilæknasamtökunum ASAM (American Society of Addiction Medicine) ætti vímuefnameðferð að vera einstaklingsmiðuð og taka mið af þörfum skjólstæðingsins hverju sinni. Þetta á bæði við um hvaða þjónustu einstaklingurinn þarf og hversu lengi hann þarf þjónustuna.
Einstaklingur á að fá aðstoð við hæfi og inngripið á að vera hóflegt; þ.e. hvorki of lítið, né of mikið.
SNÚ >
AÐSTOÐ VIÐ HÆFI
Einstaklingur á að fá aðstoð sem tekur mið af þörfum hans og óskum hverju sinni. Sumir þurfa/vilja mikla þjónustu en aðrir minni.
Vímuefnameðferð sem byggist á fyrirfram ákveðinni lengd og viðfangsefnum samræmist ekki þessari skilgreiningu um einstaklingsmiðaða þjónustu.
KANNABIS
Kannabisneysla getur valdið kvíða og þunglyndi. Einnig getur neyslan haft skaðleg áhrif á andlega virkni, eins og nám, minni og frammistöðu.
Skaðaminnkunarráð fyrir kannabisneyslu eru til dæmis að fylgjast vel með andlegri heilsu, virkni og áhugahvöt.
SNÚ >
KANNABIS
Kannabis getur einnig haft neikvæð áhrif á áhugahvöt einstaklinga. Mikilvægt er fyrir einstakling sem notar kannabis að setja sér markmið og fylgjast með hvernig gengur að ná þeim.
Ef einstaklingur kemur engu í verk, þrátt fyrir stóra drauma, gæti það verið vegna kannabisneyslunnar.
REGNHLÍFARHUGTAK
Skaðaminnkun er regnhlífarhugtak yfir margskonar inngrip sem miða að því að lágmarka skaða. Þótt hugtakið skaðaminnkun sé oftast notað í tengslum við vímuefnanotkun, þá nær það yfir mun stærra svið.
Inngrip í anda skaðaminnkunar eiga sérstaklega vel við þegar reynt er að draga úr skaðlegum áhrifum hegðunar.
SNÚ >
SKAÐAMINNKUN
Dæmi um inngrip í anda skaðaminnkunar:
Kynna áhættuminni drykkjuvenjur fyrir ungu fólki til að draga úr áfengiseitrunum.
Hvetja til öruggara kynlífs, til dæmis með því að dreifa smokkum.
Bjóða upp á heilbrigðari valkosti í stað óholls skyndibita.
Útvega fólki sem stundar sjálfsskaðandi hegðun hrein rakvélablöð.
Mæla með hreyfingu, þótt hún sé aðeins stunduð í 5 mínútur á dag.
ÁFALLASAGA
Rannsóknir sýna að margir sem nota vímuefni hafa orðið fyrir áföllum í æsku og/eða á fullorðinsárum.
Meira en helmingur þeirra sem leita sér vímuefnameðferðar hafa orðið fyrir einu eða fleiri áföllum á lífsleiðinni.
SNÚ >
ÁFALLASAGA
Að auki gerir lífsstíllinn sem fylgir vímuefnaneyslu það að verkum að fólk verður útsettara fyrir áföllum:
Fólk er líklegra til að lenda í hættulegum aðstæðum eða slysum, þegar það er undir áhrifum áfengis eða annarra vímuefna.
GEÐRÆNN VANDI
Vímuefnaneysla getur valdið geðrænum vandamálum, eins og þunglyndi, kvíða og geðrofssjúkdómum.
Einnig geta áhrif vímuefnaneyslu líkst alvarlegum geðsjúkdómum. Í þessu sambandi má nefna ofskynjanir, eins og að heyra raddir eða sjá ofsjónir, og fá ranghugmyndir.
SNÚ >
GEÐRÆNN VANDI
Oft er erfitt að meta hvort það er neysla vímuefna sem er að valda geðrænum einkennum hjá einstaklingi - eða hvort einstaklingur er að nota vímuefni til að slá á geðræn einkenni.
Erfitt er að framkvæma nákvæma geðgreiningu á einstaklingi sem er í virkri vímuefnaneyslu. Það á samt ekki að koma í veg fyrir að hann fái aðstoð vegna geðrænna vandamála.
GRUNNGILDI
Grunngildi skaðaminnkunar er að styðja einstakling til betra lífs, sama hversu smá skref einstaklingurinn er tilbúinn til að taka hverju sinni.
Þetta þýðir að skaðaminnkun virðir einstaklinginn og mætir honum þar sem hann er staddur.
SNÚ >
BÆTT LÍFSGÆÐI
Hugmyndafræði skaðaminnkunar viðurkennir að bindindi er öflugasta verkfæri einstaklings til að minnka skaða af vímuefnanotkun.
Skaðaminnkun viðurkennir líka að þótt einstaklingur vilji ekki, eða geti ekki, hætt vímuefnaneyslu sé margt hægt að gera til að bæta lífsgæði hans.
SKAÐLEGAR AÐFERÐIR
Það er mikilvægt að meðferðaraðilar hafi skilning á áföllum og afleiðingum þeirra. Eftirfarandi aðferðir geta verið skaðlegar:
Að einangra einstakling eða skilja hann eftir inni í lokuðu herbergi.
Að skilgreina einkenni sem hluta af persónuleika einstaklings í stað þess að skilgreina þau sem áfallastreitueinkenni.
Að nota einstrengislegar aðferðir eða nýta valdastöðu til að ná fram árangri.
SNÚ >
SKAÐLEGAR AÐFERÐIR
Að láta einstakling fá verkefni sem geta sett hann óþægilega stöðu eða niðurlægjandi (t.d. að þrýsta á einstakling að greina frá persónulegum vanda í grúppu).
Að nota ósveigjanlegar meðferðaraðferðir sem krefjast þess að einstaklingur beygi sig undir skoðanir meðferðaraðilans.
Að vera ómeðvitaður um að áfallasaga einstaklings hefur veruleg áhrif á hegðun hans.